Stuðboltastelpa
10.09.2009 16:30:50 / hrund

Mál að linni, í það minnsta að sinni :)

    ....    JÁ, sumarið var gott !!!

Í rúmlega hálfan áratug deildi Stuðboltastelpan hér sorgum og sigrum með sýnilegum og ósýnilegum vinum. Í gegnum þessa síðu eignaðist hún nýja vini, efldi samband við gamla og létti á sér með fíflagangi, hugsanafreti og alls konar vangaveltum. Tekið var upp á ýmsu og voru lesendur virkir þátttakendur í leikjum og alls konar vitleysu sem Stuðboltastelpan hefur stundum þörf fyrir að taka upp á.

Upphafið að síðunni var erfitt tímabil og þá var gott að geta "talað" við fólk án þess að þurfa endilega að hitta það augliti til auglitis. Um leið fékk skriftarþráin útrás. Svo kom að því að þessari sömu þrá var beint í frjóan jarðveg og Stuðboltastelpan eignaðist "afkvæmi". Vonandi verða þau fleiri einn góðan veðurdag.

Stuðboltastelpan "stækkaði" og breyttist (að hluta) í Regnbogastelpuna. Hún er hrifnust af sólinni en veit að til þess að fallegur regnbogi geti myndast þarf líka að rigna öðru hvoru. Þannig er það bara.

Stuðboltastelpan þakkar þrautseigum lesendum fyrir samfylgdina ...og undrar sig raunar á því hve vel síðan hefur verið sótt. Fleiri hundruð heimsókna á dag á löngum tímabilum kættu mjög, en nú er kominn tími á stopp. Stuðboltastelpan kveður, í það minnsta í bili, en Regnbogastelpan heldur áfram að ausa úr sínu sálartetri á öðrum vettvangi. Facebook var það heillin sem og þetta: www.flickr.com/_rainbowgirl. Nú og ef Regnbogastelpan fyllist aukinni tjáningarþörf að nýju er aldrei að vita nema hún birtist aftur hér. Ef ekki, segir hún bless.

              ...og það er aðeins ein leið fyrir Regnbogastelpuna til að segja BLESS:

                         


» 40 hafa sagt sína skoðun

10.06.2009 22:39:42 / hrund

Kodd'í partý :D


Ég mun víst gerast svo kræf að bæta við mig svona eins og einu ári á morgun og af því tilefni er blásið til teitis !!!

Við Sunna vinkona héldum ærlega upp á 21 árs afmælið (svo fleppaðar sko, allir hinir héldu tvítugspartý, hahaha) og planið var að endurtaka leikinn á 26 ára afmælunum. Svo fór þó ekki en NÚ er komið að þessu!

Eins og sannkölluð nútíma"börn" ákváðum við að treysta á facebook varðandi boð í afmælispartý á föstudaginn, eeeen það klikkaði eitthvað. Póstar sendust ekki út (ekki enn í það minnsta...) og svo virðist sem margir hafi ekki hugmynd um að við vonumst til að skralla með þeim á föstudaginn :haha::$:haha:

Aaalla vega. Við vinkonurnar stöndum fyrir "Sumarfjöri Sundar og Hrunnu" á Ölveri í Glæsibæ á föstudagskvöldið frá klukkan 20. Bús (öl, létt, sterkt og skot) verður á gömlu verðunum svo enginn ætti að fara þyrstur heim og svo er búið að tæma snakkhillur í verslunum borgarinnar fyrir geimið, haha.  Spjall og sumarkæti og svo verður kveikt á karókíinu eftir því sem lækkar í glösunum ;)

Heyrst hefur:

...að skemmtiatriði verði í boði á kostnað afmælisbarnanna. Er þá ekki átt við peningalega séð, heldur leggjum við æruna að veði *skrík* 8|8)

...að ansi hreint óhefðbundin gestabók verði á svæðinu.

...að William (well) Hung, Susan Boyle og Tay Zonday ætli öll að mæta og taka lagið. (Það eru þó óstaðfestar fréttir...)


Við vonumst til að sjá sem flesta vini og kunningja, viðhlæjendur og aðhlæjendur ... og makar og önnur viðhengi eru að sjááálfsögðu velkomin! :haha:

Until then...
Regnbogastelpan


E.s. Nánari upplýsingar er að finna á facebook undir event með nafni partýsins svo endilega kíkið á það og skráið ykkur ef þið eruð í stuði. Þar sem ég þjáist alvarlega af alzheimer light hef ég pottþétt gleymt að bjóða einhverjum sem ekki er með facebook... biðst hér með afsökunar á því og vonast til að viðkomandi mæti engu að síður :haha:

» 27 hafa sagt sína skoðun

08.06.2009 14:21:26 / hrund

:D


Að kaupa sér vatnsflösku í Evrópu þessa dagana ... 500 krónur.

Að lauma sér á túristastaði með blaðamannapassa að vopni ... ókeypis.

Að kyssast í París um miðja nótt í grenjandi rigningu ... PRICELESS !


Já, ég er komin heim. Já, það var dásamlegt. Já, ferðasaga kemur innan skamms.

Þar til þá : REGNBOGAKNÚS !!!

En ekki gleyma: TAKA FRÁ NÆSTA FÖSTUDAGSKVÖLD, ÞVÍ ÞÁ VERÐUR PARTÝ !!!


» 27 hafa sagt sína skoðun

25.05.2009 13:44:18 / hrund

Vordagar :)

Já, ég er í sólskinsskapi :haha:

Ok ok. Sauðburður = OSOM !!!   Ein rýjan gerðist svo tillitssöm að losa við við tvö stykki lömb einmitt þegar við vorum stödd í sveitinni og stóðu heimamenn við margra mánaða "hótanir" um að ég yrði sett í hlutverk ljósmóður í fjárhúsinu. Gerðist ég svo fræg að toga fyrst út eitt stykki gimbur ásamt bóndanum Herði, afa hans Óskars, og svo að troða höndinni inn í óæðri enda móðurinnar verðandi og draga þaðan út hrút nokkurn. Hann þrjóskaðist við og ætlaði sér ekki í heiminn aaalveg strax (...ég skildi hann vel, lét sjálf móður mína elskulega bíða mín í 18 DAGA, takk fyrir), en út náðist hann og undirrituð brosti hringinn í marga daga á eftir. Systkinin nýfæddu voru skírð Hrund og Óskar og hér má sjá mig og Óskar :haha:  
  
Og jább, Óskar tók myndina...  ekki lambið Óskar samt, haha

Bróðir minn ljúfi og frú komu með okkur í sveitina í þetta sinn en við fórum heim daginn eftir enda beið Holunnar að halda tryllt Júróvisjónpartý. Nema hvað !?!  Undirrituð burðaðist með borðstofuborðið út á götu þar sem gestir sýndu snilli sína... snillin hélt svo áfram inni í stofu til að verða þrjú og þá var farið í bæinn... og dansað ennþá meira. Þetta var ÓTRÚLEGA skemmtilegt kvöld, ég hlýt að eiga ÓTRÚLEGA skemmtilega vini !!!
Ég ELSKA vini mína !!!  :-*

Þegar sólin skín er mér lífsins ómögulegt að haldast við innandyra og því er ég orðin vel maríneruð af sólarsundi síðustu vikuna. Freknur eru...     MÆTTAR !!!  hahaha

Á þriðjudagskvöldið héldum við svo fimm saman á Esjuna þar sem grill var dregið fram á toppnum. Göngumenn + kona sporðrenndu eðalhamborgurum á meðan aðrir toppgestir horfðu ýmist öfundar- eða undrunarsvip á þennan undarlega hóp. Þegar niður af fjallinu var komið kom í ljós að fiskisagan hafði flogið hraðar niður en við, því niðri á bílastæðinu var fólk að ræða um "eitthvað klikkað lið sem hefði víst verið að grilla á toppnum"!!!  hahahaha :haha:

Snilldin ein... og b.t.w., frisbídiskurinn brosmildi var notaður sem grillspaði :haha:

Fimmtudagurinn var svo GULL! Bláa lónið + sól = fullkomið !!!  Þar lágum við Óskar og grilluðum okkur í rúma tvo tíma áður en Garðskagaviti var heimsóttur og nesti borðað í notalegri laut. Og bíðið svo hæg. ÓMÆGOD !!!   Næst á dagskrá var nefnilega að finna HVAL sem rekið hafði á land á Suðurnesjunum. Og þvílík endalaus ógurleg snilld !!!  Þetta var hnúfubakur, svaðalegt flykki, sem lá bara þarna í fjörunni í heilu lagi og beið mín svei mér þá með bros á vör! Ég knúsaði hann, potaði í tippið, augun, tunguna og allt hitt, notaði hann sem trampólín og kúrði með honum í sólinni. Vá... ef hrifning mín á hvölum hefur hingað til þótt undarleg keyrði þarna um þverbak. Eða ... hvalbak.     (hohohohoh)

Jábbs, ég notaði hvalinn sem trampólín  hahahaha
Endilega skoðið fleiri myndir frá Óskari á www.oskarpall.com og mér á www.flickr.com/_rainbowgirl.

Á föstudaginn var svo vinnudjamm og í gær tvö matarboð og leikhúsferð. Á miðvikudaginn sting ég svo af og ætla að láta London, Edinborg, Sólu (sem býr í Edinborg) og París knúsa mig í nokkra daga. Svei mér þá hvað lífið getur verið yndislegt!

Yfir,
Regnbogastelpan

» 22 hafa sagt sína skoðun

12.05.2009 15:45:37 / hrund

Helstið...


1. Júróvisjón er í kvöld.
2. Júróvisjón er á fimmtudaginn.
3. Júróvisjón er á laugardaginn.

:haha::haha::haha::haha::haha:

Nördaskapur nær þó einungis framúrskarandi meðalmennsku þetta árið og hefur mér ekki enn tekist að finna lag, í þessum 42 laga bunka, sem mér finnst tótallí og gjörsamlega get-ekki-hætt-að-hafa-þetta-á-replay æðislegt. Því miður!  Samt er þarna slatti af þokkalegum lögum sem vel má dilla sér við eins og eitt kvöld...eða þrjú :haha:

Aðrar fréttir:

4. Óskar fagnaði kvartaldarafmæli sínu á laugardaginn. Hann var með hatt og ég var í nýjum kjól svo auðvitað var kvöldið algjört æði :lol:   Ok djók, það VAR æði en það var vegna ótrúlegs fjölda af æðislegu fólki sem kom saman þetta kvöld! Myndir væntanlegar innan skamms.
5. Ég er með glóðarauga. Það er töff. Orsök glóðarauga: Fljúgandi sími. Er þar hugsanlega komin ný skilgreining á orðinu "far-sími".   (hohohohohohohohoh)
6. Á föstudag held ég í sveitaferð (ójáá, aaaah) og gerist vonandi lambaljósmóðir. Lömb á viðkomandi bæ eru því vinsamlegast beðin að skipuleggja komu sína í heiminn áður en Júróvisjón hefst á laugardaginn....  hahahahahahahah

Æ, vitiði hvað. Ég er farin. Heyrumst...og sjáumst. Pow wow,
RegnbogaStuðBó


» 27 hafa sagt sína skoðun

30.04.2009 10:22:05 / hrund

Áskorun tekið :P


Þrátt fyrir að í þessum skrifuðu orðum sé ég á mínum átjánda degi í lasleika og/eða kvefi hef ég lítið verið heima hjá mér undanfarið. Síðustu helgi var ferðinni heitið í sumarbústað á Kirkjubæjarklaustri með Óskari og þremur yndispíum úr vinnunni og á heimleið á sunnudeginum var svo komið við í skírn í sveitinni hans Óskars. Já já, nóg að gerast, hehe.

Markmið ferðarinnar var m.a. að rúnta um suðurlandið á laugardeginum með þriggja tonna myndavélabúnaðinn sem var með í för, hehehe. Reyndar eru þrír af ferðafélögunum ljósmyndarar svo það var ekkert skrýtið :lol: Á laugardeginum vöknuðum við og drifum okkur út vel fyrir hádegi ... EITT STÓRT KLAPP :haha: Byrjuðum á að skoða Fjaðrárgljúfur og keyrðum svo að Jökulsárlóni með nokkrum mynda- og nestisstoppum á leiðinni. Ákveðið var að hafa fimm þemu í gangi sem allir ættu að mynda yfir daginn (vatn, hreyfing, texture, talan þrír og "bara landslag") en það fór eitthvað fyrir ofan garð og neðan hjá hópnum. Eitthvað reyndi ég þó að hafa það í huga og myndaði t.d. bara áskorendurna sjálfa fyrir þristaþemað::lol:


Ég gerði líka nokkrar tilraunir til að mynda áferð, valdi þessa:

Fannst þetta eins og nammi ... ef einhverjir vilja vita hvar Smarties-ströndin er verða þeir bara að koma með mér í ferðalag í sumar, haha :haha:

Í flokknum "bara landslag" reyndi ég að mynda Fjaðrárgljúfur. Myndin er dáldið grá, en held bara áfram að æfa mig í myndvinnslunni ;)


Vatn var lítið mál að finna á þessu ferðalagi, tók t.d. þessar:


Hreyfingin er verra mál. Gleymdi þeim flokki eiginlega en skítreddum þessu svona. Bíllinn er sko á hreyfingu þótt Óskar sé það ekki, hehehe:


Þannig að. Hér með hef ég tekið áskoruninni þótt ekki sé það kannski með stæl :lol:

Á síðunni minni (www.flickr.com/_rainbowgirl) eru fleiri myndir ... mæli samt meira með síðunni hans Óskars sem þið eruð vonandi öll búin að skoða áður: www.oskarpall.com :haha:  Svo settum við reyndar líka fleiri hressleikamyndir á facebook... sjett hvað maður er tæknivæddur, hahaha.

Best að stela að lokum einni frá honum, hún lýsir því dáldið vel hvernig ég fer að því að njóta náttúrunnar ... BURT MEÐ SKÓ OG SOKKA (í það minnsta...). Hahahahaha

Það var rosa hlýtt og notalegt að vaða með klökunum í Atlantshafinu *hóst*  :haha:

Um kvöldið grilluðum við svo, horfðum á Pál Óskar og hina Júróvisjónnördana (vertíðin sem sagt hafin, júhúúúú...) og undirrituð stalst í kosningasjónvarpið við hvert tækifæri. Laumaðist á koddann um klukkan þrjú um nóttina þegar hin voru farin að hrjóta, varð auðvitað að heyra í formönnum ungliðahreyfinganna fyrir svefninn þar sem ég á vinkonur í þeim hópi. Sem stóðu sig með prýði b.t.w. !!! :haha:

Góð helgi, good times. Og nú er fimmtudagur, sem er í raun föstudagur. Mí læk!

Knúsið hvert annað. Yfir,
RegnbogaStuðbó ;)

» 14 hafa sagt sína skoðun

22.04.2009 19:33:11 / hrund

Du er levende, husk det !

                       

Ó já. Þetta snilldarkvót hér að ofan er af æðislegu veggfóðri á kaffihúsi sem við Óskar settumst inn á síðasta daginn í Köben. Þar tók hann líka þessa æðislegu mynd... hún sýnir held ég ágætlega hvað mér leiddist rosalega. Emmett :haha:

Sólin skein alla daga og Köben tók hreinlega á móti okkur í sínum fegursta aprílbúningi. Ég gat þó auðvitað ekki látið vera að púlla eitt stykki Ofur-Hrund og var sem sagt veik alla ferðina. Og gjörsamlega h(r)undveik fyrsta daginn! (Ég mæli alls ekki með því að æla í tax free poka í fríhöfninni...). EN, lét maður þetta stoppa sig. Onei... það var dansað af fremsta megni, hvort sem var á Sam's Bar eða í dýragarðinum. Í dýragarðinum kysstu fiðrildin mig:
   

...og á ráðhústorginu kyssti sólin mig:

Þessar flottu myndir eru auðvitað frá Óskari ... við hentum bæði slatta af myndum úr ferðinni á fésið góða og svo má (eins og alltaf) skoða listaverkin hans á www.oskarpall.com ...góða skemmtun!

Nú. Litla hafmeyjan strippaði fyrir okkur, lífverðir drottningar létu sér leiðast að vanda á milli þess sem þeir skelltu saman hælum að gömlum sið og Nyhavn heillaði. Það gerði verðlag hins vegar ekki, en ekki múkk um það meir!

Yndislegt var að hitta Lilju mína og taka saman bæjarrölt og svo mætti skvísan auðvitað í surprise- afmælispartýið sem ég, Óli (með Carlsberg bindið) og Habbý smöluðum saman í. Ég hafði sagt Óskari að við ætluðum að kíkja í partý hjá Lilju með ókunnugu fólki og var hann grunlaus fram á síðustu sekúndu, þegar Lilja mín opnaði fyrir okkur heima hjá Óla og co (vinum Óskars) og leiddi okkur inn í stofu þar sem hópurinn tók á móti okkur með húrrahrópum og fánaveifingum að dönskum sið. Óskar var dálitla stund að átta sig á hverjir væru þarna staddir (enda tókst mér meira að segja að fá einn vin hans alla leið frá Jótlandi í geimið!), svo kom þögn áður en hann leit á mig í skemmtilegri blöndu af undrun og ánægju og tilkynnti mér: "Djöööööfull ertu klikkuð!". Osso fékk ég knús. Svo var bara kjaftað, skálað, sungið og dansað fram á rauða nótt. *dæææs-það-var-gaman* !

 
 

Laugardagurinn fór í að sleikja sólina smá og láta svo hrista aðeins misþunnar garnirnar í tívolítækjum.
 

Í tívolíinu nældi Óskar í gíraffann Ulrik með ótrúlegri frammistöðu í Sky ball! Gírafinn (sem b.t.w. er stelpa... eða, alla vega ekki strákur...) hlaut þetta fagra nafn á göngunni heim þegar við hittum nokkra rallhressa Dani sem leist vel á kauða. Í tívolíinu fann ég svo Stuðbó, I was completed!  (djók... en samt ekki.... hahahahahaha)
 

Á HardRock fékk Óskar afmælisís sem sló (auðvitað) í gegn, en fyrst þurfti hann að standa uppi á stól á meðan allir sungu fyrir hann. Kúúúturinn , hahahahah. Eeen það var ekki eini hressleikinn á HardRock. Nix, Ari... öðru VatnsbyssAri fór á kostum ;)
 

Sunnudeginum vörðum við Óskar svo í dýragarðinum þar sem undirrituð missti hreint aaaalls ekki gleðina í félagsskap hoppandi ísbjarna, syndandi flóðhesta og krúttlegra gíraffaunga. Jáh, það var gaman hjá okkur!

Við tókum dásamlegt forskot á sumarið, sem blessunarlega gengur í garð ekki seinna en...tatatataaammm... Á MORGUN !!! Ég er því miður búin að gleyma öllum litlu sögunum úr ferðinni sem rata áttu hingað, enda er heilinn á mér búinn að steikjast í lasleika og aumingjaskap á hressum ferðalögum undanfarið. Já já, kennum því um ;)  Ástæðan er alla vega ekki gleymni undirritaðrar !  HUST DET  (du er levende) !

Í flugvélinni á leið heim fékk ég svo afar skemmtilegt hrós frá flugfreyjunni: "Það er aldeilis auðvelt að gleðja þig", sagði hún og brosti svo stífmáluðu en krúttlegu flugfreyjubrosinu sínu. Gott markmið til að lifa eftir þar á ferð ! 8)

Síðasti vorkoss ársins :-*
Regnbogastelpan

» 31 hafa sagt sína skoðun

14.04.2009 22:33:20 / hrund

Goðafossgolf um gleðilega páska !


Nú verða lesnar fréttir.

Eða, ég ætla að skrifa þær, þið ráðið auðvitað hvort þið lesið þær...  :haha:

Páskarnir voru snilldin ein! Á fimmtudegi var brunað norður á Agureyris og fékk Danni Starra far með okkur Óskari. Fékk ég viðurnefnið "mamma" þegar ég dró upp kælibox með niðurskornu grænmeti og öðru holl- og góðmeti og var ég afar stolt af nafnbótinni. Mér eru líka enn að berast þakkir fyrir góðgætið, sem kom í stað sveitts sjoppuborgara þennan daginn!
Thinking by you.
Óskari finnst ég stundum dálítið hugsi. Mér finnst hann stundum dálítið hugsi. Hér er hann, hugsi, við Goðafoss :)

Við Óskar fengum að gista hjá snillingunum í Aðalstrætinu, sem þögðu alla páskana með mér yfir leyndarmáli sem ég hef lumað á í tvo mánuði takk fyrir pent. Meira um það á eftir!  (svona ef einhver skyldi hafa ætlað sér að hætta að lesa... hehehe)   Steinþór og Sonja hýstu okkur sem sagt af alkunnri gestrisni og notalegheitum og buðu okkur m.a. tvisvar í ofurroknaæðisleg matarboð ásamt öðru skemmtilegu fólki. Fyrsta daginn var tekin síldartunnusundferð þar sem við tókum þá afar óskynsamlegu ákvörðun að halda í laugina á sama tíma og skíðabrekkurnar lokuðu. Við náðum þó að dýfa tánum ofan í heita pottinn, nudda rössum við aðra slíka og týna bæði hreinsikremi og debetkorti. Vel gert það.

Föstudagur: Hreinsikrem og debetkort endurheimt. "Ljósmynda"rúntur á Mývatn og nágrenni í bíl sem útvegaður var með afar vafasömum aðferðum. Ekki orð um það meir, hahaha. Deildi ég tveggja fersentimetra aftasta sætinu með strákunum á víxl og tel ég þar fundna afar góða leið til þess að kynnast fólki:haha:  Það voru ekki margar myndir teknar þann daginn en tekið upp á ýmsu öðru. Eftir heimsókn í Grjótagjá þar sem strippað var fyrir túrista og synt í um 42° heitu vatninu var tekið um hálfrar mínútu nestisstopp við Dimmuborgir. Nesti var síðar etið í aðeins minna kappi við klukkuna, þó lögðu ekki allir út í kuldann... og misstu af vikinu af því þegar Óskar braut páskaegg á höfði félaga síns. Þeir eru ennþá vinir að því er ég best veit, hehehehe.  Sá sami vinur, sem þekktur er fyrir uppátækjasemi og gíslagang, missti þó andlitið þegar undirrituð tók upp á (þeim leiða sið sínum) að hringja kirkjuklukkum... tókst henni því að ganga fram af honum fyrir hádegi og telst það til tíðinda. Húrra fyrir mér, hehe.
Crazy? by you.
Hér er Óskar, á nærbuxunum, að spila golf í skítaveðri á föstudaginn langa úti í Goðafossi. Mjög eðlilegt altså, hahaha.   Fleiri myndir eru á www.flickr.com/_rainbowgirl og www.oskarpall.com.

Eftir rúntinn tókum við Óskar leiki í ofurkeilusalnum á Akureyri og tókst mér að landa jafntefli í fyrri leiknum með 141 stigi, án þess þó að ná einni einustu fellu ! Óskar státar af einhverju ofurÍslandsmeti í keilu sem hefur staðið óhreyft í hundrað ár svo taldi ég þetta frekar gott. Engum sögum fer af úrslitum seinni leiksins *hóst* :lol:  Fórum svo út að borða, á Strikinu nota bene, sem á afskaplega vel við leyndarmálið sem ég minntist á áðan og uppljóstrað verður hér rétt strax áður en kíkt var í drykki með S og S. Ég meina, þetta var langur föstudagur svo einhverju varð að taka upp á ;)

Laugardagur: Planið var jómfrúarferð Óskars í skíðabrekkur og nánast afmeyjun mín á snjóbretti en veðrið vildi ekki skammast sín svo tekinn var frábær dundidagur. Jólahús, sveitagallerý, bíltúr, Brynjuís, bókamarkaður og sitthvað fleira en engin sjókajaksferð eins og til stóð. Eigum hana inni hjá einum innfæddum norðanmanni :haha: Matarboð hið síðara og bæjarhittingur með vinum víðs vegar að af landinu fullkomnuðu svo daginn. Þegar þarna var komið sögu höfðum við varið tíma með fólki af íslensku, dönsku, grænlensku, tékknesku og austurrísku bergi brotið. Helv. gott, hehe.

Sunnudagur: Pakki í morgunmat handa Óskari, því hann þurfti að hita upp fyrir leyndarmálspakkann sem hann fékk svo í dag :lol: Svo var það "heimferð". Eða, keyrðum alla vega í bæinn ásamt Danna Starra sem fékk skutl heim að dyrum í Reykjavík. Við Óskar entumst heilt korter eða svo innan borgarmarka og héldum beinustu leið í sveitina hans í Laugardalnum, og höfðum við þar með farið "norður og niður" þessa páskana. Í sveitinni voru hvolparnir níu sem fæddust þegar við fórum síðast í sveitina, fyrir þremur vikum, og herregúd hvað var notalegt og skemmtilegt að leika við þá. Ok, með þá, efast um að þeim hafi þótt það jafngaman og mér, hehehehe. Baaara sætir.  Í sveitinni var líka frábært fólk, enn ein veislumáltíðin og hænsnahús með súkkulaðieggjum og bleikspreyuðum hana!!! Nældi mér líka í öfluga kvefpest og lasleika sem ég berst nú við með kjafti og klóm, enda þarf ég að vera hress vegna leyndarmálsins góða.

Ó já. Ég átti mér leyndarmál sem ég lak í Óskar í hádeginu í dag! Þar sem strákurinn fer að slaga í aldarfjórðunginn ákvað ég að taka hann með mér til Kaupmannahafnar í nokkra daga og förum við á fimmtudaginn. Hann fékk því rúman dag til að ljúka því sem ljúka þarf áður en við stingum af í unaðssæludaga.... mmmmm !!! Var búin að redda fyrir hann fríi í vinnunni, aflýsa myndatöku sem hann átti að vera með næstu helgi, fá mömmu hans til að komast (afar lúmskt!) að því hvort passinn hans væri í gildi o.s.frv. o.s.frv.  Tveggja mánaða leynimakk og mér leiddist það sko ekki. Onei ! :haha:

En sem sagt. Fimmtudagsmorguninn höldum við til Kóngsins Köben og mun hann þá sjá hverskonar últraDanalúði ég er, hehehe. Verst hvað danskan hlýtur að vera orðin ryðguð... en, to, tre... en öl, tak skal du ha'  ;)

Já. Lífið er gott ... njótið þess 8)
Regnbogastelpan

» 19 hafa sagt sína skoðun

01.04.2009 23:53:06 / hrund

Jább

Það hefur kannski ekki farið framhjá þeim sem kíkja reglulega á síðuna mína að síðan Óskar lánaði mér gömlu myndavélina sína um daginn hef ég eignast nýtt áhugamál :lol:
The photographer by *rainbowgirl*.
óskar mundar vélina, af alkunnri snilld!

Það þýðir ekkert að setja svona mikið af myndum á bloggið, því síðan verður svo þung og svona svo ég hætti að vera kjúklingur, lét undan þrýstingi og fékk mér Flickr síðu eins og "allir hinir", hehe. Það er fullt af rúkkíum eins og mér þarna svo það er allt í lagi. Svo er maður hvort sem er orðinn svo opinberaður fyrir ;)

Slóðin er (nema hvað?!?...) www.flickr.com/_rainbowgirl

Nóg í dag. Yfir,
Regnbogastelpan :haha:

» 28 hafa sagt sína skoðun

31.03.2009 00:40:04 / hrund

Botninn er suður í Borgarfirði...


... segir í þjóðsögunni, en þessa helgina var toppurinn (á tilverunni) norður í Borgarfirði ;)

Undirrituð bjó sig undir vorferðalag (það er VÍST komið vor *hóst*) en tók þó meðferðis svefnpoka, kodda og teppi samkvæmt leiðbeiningum Óskars. Hann ætlaði með mig í óvissuferð! :haha:  Óvissan var reyndar aldrei meiri en svo að ég ég vissi að þetta yrði æðislegt...
CRW_5367 by you.
Undir Hafnarfjalli, þar sem ávallt blæs...

Ferðin hóst á frisbíkeppni í Grundarhverfi. Kjalnesingar halda því fram að þar sé aldrei rok, lognið ferðist aðeins mishratt ... ef svo er var það á hraðferð þennan dag! Ég fékk þó Kára í lið með mér, sigraði keppnina og hlaut Happaþrennu að launum. Um helgina var svo líka keppt í körfubolta, golfi, boomerang- kasti, hakkísakki og hitaágiskun. Hóf ég keppni af kappi en grúttapaði í samanlögðu. Sigraði þó langmikilvægasta liðinn... körfuna auðvitað ;)
CRW_5373 by you.  CRW_5372 by you.
Það vantaði hvorki rok né kulda þennan dag !

Laugardaginn notuðum við til að skottast um uppsveitir Borgarfjarðar og "skoða" allt sem glitti í í gegnum bylinn og fjúkið. Golfkeppni í þrjúþúsundogsjötíumetrumásekúndu var sérlega eftirminnileg en það var líka skemmtilegt t.d. að rúnta um á flugvelli og jeppast á "fjallatröllinu" hans Óskars 8)
CRW_5410 by you.   CRW_5419-2 by you.
Já já, keyrikeyr og gobbigobb... :D

Eftir rúntinn var stöðvað í Reykholti en það var ekki fyrr en Óskar tjáði mér að svítan á hótelinu biði okkar sem upp rann ljós....   "óóóóóó, var svefnpokinn bara til að afvegaleiða mig ?!?"   *smáseinaðfattaskilurru*    Dagurinn var dásemd í alla staði; notalegheit, prakkaraskapur, heitupottaferð ein í heiminum þrátt fyrir hávaðasama árshátíð í sama húsi, matur, vín og kósýheit par exelans!  Óskar hafði hugsað fyrir gjörsamlega ÖLLU og kom mér aftur og aftur skemmtilega á óvart. Á meðan undi Sóldís sér vel í baðkarinu ... hún var í baði ALLA helgina!  Hún var samt ekki eini aukafarþeginn, onei. Bangsinn minn kom með og er loksins kominn með nafn: Sóli var það heillin (en ekki hvað, hehe) ;)  Ég skírði hann raunar eftir kúnstarinnar reglum (eða svo gott sem...) í kirkjunni í Reykholti og tel ég að hann muni bera nafnið með sóma. Sóli fékk líka að koma með út að leika...
CRW_5389 by you.

Sunnudagurinn bar svo nafn með rentu því sólin kitlaði nývaknaða nebba og fyrsta setning dagsins var "Hey, sjáðu... blár himinn!" Morgunverðarhlaðborðinu gerðum við góð skil og fékk ég m.a. vöfflu sem var eins og lítið snjókorn. :haha: Svo var bara um eitt að ræða: ÚT ! Hraunfossar og Barnafoss, Glanni og Paradísarlaut, Varmaland, Bifröst og Akranes voru meðal áfangastaða. Í Munaðarnesi var grillið dregið fram og lumaði Óskar á dýrindismáltíð. Við grilluðum í glaaampandi sól en sumarlegasta mat sem um getur átum við af broskarlapappadiskum í þéttri snjókomu. Ahhh já, við búum víst á Íslandi :haha:  (Fólkinu sem átti leið framhjá virtist finnast við frekar undarleg...)

CRW_5404 by you.

Enn ein dásamleg helgin er að baki. Kveð að sinni, en munið að njóta lífsins.

Yfir.

E.s. Ég sé ekki betur en að á að giska þrjár pííínupooonsulitlar freknur hafi valið sér ból framan í mér þennan sólbjarta sunnudag. Eru þær hér með boðnar hjartanlega velkomnar sem og öll þeirra skyldmenni.

E.e.s. Talandi um ból. Við sáum leikskóla um helgina sem heitir Hnoðraból ... hveeersu krúttlegt er það?!? :haha:
» 37 hafa sagt sína skoðun

22.03.2009 22:47:26 / hrund

Endurnærð!


Þegar bróðir minn var lítill hafði hann ákveðna skoðun á því hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór. Fyrst ætlaði hann að vera "stór og sterkur jeppakall" ... stundum var það "stór og sterkur nagli" ... og það má alveg segja að þetta hafi ræst. Hann skipti samt um skoðun í kringum fjögurra ára aldurinn, því þá ætlaði hann sér að verða "línumaður sem klifrar upp í staura og ýtir beyglunni út"! Ég hef aldrei áttað mig nákvæmlega á hvað hann átti við, bara svona nokkurn veginn, en það er á hreinu að fyrirmyndir hafa áhrif. Oo jááá. Pabbi hannar sko m.a. línur. Varð hugsað til hans um helgina:

CRW_5303 by you.
... ætli þarna sé líka komin skýringin á dálæti mínu á LÍNU Langsokki?!? :haha::haha:

Helgin var dásemd. Sveitaferð með veðri af öööllum gerðum! Fór í heitan pott undir kvöldljósadýrð, sá stjörnuhrap, var hamingjusöm. Svaf undir súð ýmist í fuglasöng eða óveðri, hvort tveggja dásamlega notalegt. Sá níu nýfædda hvolpa og komst að því að þeir eru blindir og heyrnarlausir og komast fyrir í lófanum á manni! Skoðaði ekta sveitakirkju og þurfti að hemja mig virkilega þar sem kirkjuklukkukaðlarnir héngu við hlið mér ... jább, stundum get ég verið stillt og prúð :lol: Við Óskar gátum samt ekki alltaf hamið okkur og brutum eina reglu. Hefndist næstum fyrir það, allvandræðalega, en sluppum fyrir horn ... eða ... sluppum í gegnum hlið *FLISS* :lol:

"Göngum, göngum, göngum upp í gilið..." hljómaði í höfðinu á meðan við gerðum tilraun til að gera einmitt það "gljúfrabúann til að sjá". Viðleitnin var umtalsverð en langt komumst við ekki. Stilltum þó upp sexfæti og tókum nokkrar myndir. Ok, Óskar tók myndir á meðan ég prófaði í fyrsta sinn að taka myndir af vatni. Í grenjandi rigningu. Það var hressandi :haha:

CRW_5321 by you.

Keyrðum af stað í bæinn í dag þar sem Kardimommubærinn beið okkar í Þjóðleikhúsinu. Héldum af stað í snjókomu og hálfgerðri ófærð en fljótlega sátu tvenn sólgleraugu á kátum nebbum sem fögnuðu sólinni. Vorið var VÍST komið ! ;)

Dásemdarhelgi sem gaf fyrirheit um allt þetta skemmtilega sem er framundan. Páskar ... vor ... sumar ... og allt sem því fylgir. Ég bið sko ekki um meira :haha:

Knúsíspað. Yfir 8)

» 26 hafa sagt sína skoðun

16.03.2009 17:12:57 / hrund

Mynda- saga ;)


      CRW_5245 by you.
     Við Kleifarvatn

Það var fimmtudagur, ég var í fríi og sólin skein. Aðeins eitt kom til greina. Út að leika! :haha:  Skellti myndavélinni og mömmu í litla torfæru- Hyundai- Accentinn minn og hélt út á Reykjanesið. Kleifarvatn og umhverfi þess var með ólíkindum fallegt í sólinni og klakahrönglið við strendurnar eins og lítið ævintýraland. CRW_5257 by you.  CRW_5254 by you.

Stráin voru sammála mér, haha 
CRW_5246 by you.

Sólin lét sig því miður hverfa fljótlega en áfram var haldið (þar til "jeppinn" minn...*hóst hóst* gafst upp...). Það var kalt en eitthvað minnti mig samt ósegjanlega á sumarið, sem ég er farin að hlakka verulega til!
CRW_5267 by you.

Veit ekki alveg af hverju en það er eitthvað svo skemmtilegt við yfirgefin eða ónýt hús!
CRW_5281 by you.

Jamm jamm. Komum líka við í pííííínulítilli kirkju og þar steig mamma í pontu. Hún kvaðst aldrei hafa predikað áður, veit nú ekki aaaalveg hvort ég skrifa undir það ;)

CRW_5286 by you.
Friður sé með yður ... og með þínum öndum (hohohohoh....)

Svo sannarlega notalegur bíltúr. Lykillinn að góðum degi ;)
CRW_5288-3 by you.

Yfir.
Stuðbó í vorstuði :haha:


» 31 hafa sagt sína skoðun

12.03.2009 21:38:28 / hrund

Ok, we get it... þér fannst hesturinn fallegur...

                   IMG_0755-2 by you.

Þegar ég var (minni) stelpa "átti" ég hest. Afi minn átti hann svona lögfræðilega og málfræðilega séð... en hann var samt "hesturinn minn" ;)  Hann Gráni minn var fallegastur, vitrastur, mýkstur og bestur og hann gat kannski ekki talað, en með augunum sagði hann svoo margt. Um daginn vorum við Óskar á ferð um Suðurlandið (neeiii...haaaa....getur það verið?!? *fliss* ) og hittum þennan. Hann minnti mig notalega mikið á Grána.

IMG_0752-2 by you.  IMG_0751-2 by you.

Þetta fannst mér fallegt....
IMG_0745 by you.


Skellti mér reyndar í bíltúr í dag líka, á Reykjanesið og tók mömmu og myndavél með mér. Sólin vildi bara brosa til okkar í um hálftíma, en þvílíkur hálftími... aaahh. Vor, vor, vor !   Sýni ykkur eitthvað frá þeim rúnti næst. Until then...

Yfir :haha:

» 29 hafa sagt sína skoðun

09.03.2009 14:37:48 / hrund

Með öðrum augum...


Jább, með myndavél við hönd lítur maður umhverfið ósjálfrátt öðrum augum. Með það í huga skottaðist ég um nánasta umhverfi í von um að læra aðeins á stillingar vélarinnar.

Ég dró mömmu niður í fjöru...
  hth_090216_002-20 by you.
...stelpan sem starir á hafið ;)


hth_090216_002-27 by you.


Ég fór líka í slipp.   Ok, ÉG fór ekki í slipp, en ansi væri það nú magnað. Þ.e. ef maður gæti bara sent sjálfan sig í slipp öðru hvoru og komið aftur betri en nýr :haha:

   IMG_0338-2 by you. 

IMG_0360 by you.

Grótta var líka heimsótt... nema hvað !
IMG_0393-3 by you.
...hveeersu oft hefur maður leikið sér þarna. Tínt fjörugull, ræktað kartöflur, skokkað, línuskautað, vaðið, stolist út að vitanum....


Jebb. Dundidund.
Yfir.
hth_090216_002-98-2 by you.» 28 hafa sagt sína skoðun

06.03.2009 17:54:24 / hrund

Ég var að pæla...


...og hef komist að eftirfarandi niðurstöðu: Uppáhaldsnammi fólks getur sagt ýmislegt um persónuleika þess!Tökum dæmi: Sá sem fær sér helst t.d. ópal, hraun, lakkrísrör eða kók í gleri er líklega jarðbundinn, íhaldssamur, traustur og staðfastur. Umhverfisvæna gourmet-týpan kaupir fínt lífrænt súkkulaði með háu kakóinnihaldi. Listaspírurnar fá sér Eitt sett og aðra innlenda framleiðslu eða eitthvað fleppað sem þær keyptu í síðustu ferð til London. Þessi með nostalgíuna borðar Lindubuff og kóngabrjóstsykur á meðan hann rifjar upp hvað Sinalco var gott og framapotararnir fá sér kolvetnabombu á borð við Mars eða Snickers á hlaupum milli funda. Cosmopolitan- pían fær sér Maltesers af því það á að vera aaaðeins hollara en annað súkkulaði og þar með getur hún borðað þrefalt meira af því fyrir vikið...

Ég er bland í poka ;)   he he he he


En að öðru. Það er svaka gaman að finna sér ný áhugamál og um daginn lánaði Óskar með gömlu myndavélina sína, sannkallaðan eðalgrip sem vill vonandi vera vinkona mín :haha:  Ég skellti mér líka á smá námskeið í Lightroom (einfaldara en Photoshop, haha...) og svo er bara að leika sér...

Byrjaði á að fikta smá í gömlum myndum. Skelli snöggvast inn nokkrum af þeim og svo er aldrei að vita nema ég laumi einni og einni mynd á bloggið þegar ég er í stuði 8)

Bí bí og blaka.....

IMG_3291 by you.
Krían gerði öfluga (og verðskuldaða) tilraun til að ráðast á mig í Flatey síðasta sumar.

IMG_2766-3 by you.

IMG_2759 by you.
Lundarnir á Látrabjargi voru alveg til í að leika við mig sumarið 2007.

IMG_2147 by you.

...förin á síðustu myndinni eru eftir óþekkta fuglategund, ho ho ho ho....


Njótið helgarinnar :haha:

» 30 hafa sagt sína skoðun

Síður: 1 2 3 ... 58
Heimsóknir
Í dag:  41  Alls: 530164
Leitarbox